Blaðamaðurinn Egill Helgason vakti í gær athygli á færslu sem Snorri Másson, alþingismaður, setti á X um morðið á bandaríska íhaldsmanninum Charlie Kirk.
Í færslu Snorra sagði hann miðvikudaginn hafa verið svartan dag fyrir tjáningarfrelsi á Vesturlöndum. Verknaðurinn væri „ólýsanlegt voðaverk“ og árás á frelsi okkar allra. Hann lauk færslunni með orðunum: „Nú er að verjast.“
Egill svaraði og sagðist ekki skilja orðalag þingmannsins. Hér á landi væru stjórnmál annars eðlis en í Bandaríkjunum, almenningi væri ekki heimilt að ganga með skotvopn, og MAGA-hugmyndafræði væri Íslendingum framandi. „Hverju eigum við þá að verjast?“ spurði hann.
Umræður urðu líflegar í athugasemdum við færslu Egils. Margir tóku undir gagnrýnina og töldu orðræðu Snorra innflutta frá Bandaríkjunum. Einnig var bent á að óeðlilegt væri að tengja morðið beint við tjáningarfrelsi, þar sem Kirk hefði sjálfur beitt þrýstingi á kennara sem þóttu of frjálslyndir.
Aðrir mótmæltu þeirri sýn og minntu á að Snorri hefði fengið öryggisvöktun við heimili sitt, auk þess sem Íslendingar hefðu birt efni á TikTok og skrifað á X eftir morðið þar sem minnst var á að Snorri gæti orðið „næstur“. Því væri árétting hans um að „verjast“ ekki á sandi byggð.
Mesta athygli vakti þó að amma Snorra, Helga Kress prófessor emeritus, hnytti í barnabarn sitt í athugasemd við færslu Egils og skrifaði stutt: „Gegnsær populismi, hallærislegt.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helga lætur í sér heyra; í sumar gagnrýndi hún harðlega málþóf stjórnarandstöðunnar, þar sem Miðflokkurinn og Snorri voru í fararbroddi.