Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti Volodymyr Selenskíj, forseta Úkraínu, til að samþykkja friðarskilmála Vladimir Pútín til að binda enda á stríð Rússlands og Úkraínu á fundi í Hvíta húsinu á föstudag. Selenskíj kom til Washington í síðustu viku til að óska eftir frekari hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum, á sama tíma og bæði Úkraínumenn og Rússar hafa aukið áreitið á orkuinnviði hvors annars.
Samkvæmt frétt Financial Times, sem Daily Mail vísaði til, þróaðist fundur leiðtoganna á föstudag hins vegar í annað en reiknað hafði verið með. Fundurinn varð að háværu rifrildi frekar en samningaviðræðum. Heimildir blaðsins herma að Trump og Selenskíj hafi skipst á hrópum inni á fundinum.
Trump á að hafa kastað kortum sem sýndu víg líkur í Úkraínu til hliðar og krafist þess að Selenskíj afsalaði Rússum öllu Donbas-héraðinu, eins og Rússar hafa farið fram á. Hann varaði Selenskíj við og sagði berum orðum að „Pútín muni eyða þér“ ef honum væri hafnað.
Talað er um að svipuð spenna hafi ríkt á fundinum á föstudag og í febrúar þegar Trump og varaforseti hans, JD Vance, ræddu við Selenskíj á harkalegum fundi sem líklega verður lengi í minnum hafður.
Selenskíj sagði á föstudag að hann væri svartsýnn á að friður myndi nást, þar sem Pútín vilji ekki frið. „Þess vegna þarf að auka þrýsting á hann,“ sagði hann.