Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að hann ætli að funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Búdapest. Fundurinn kemur í kjölfar farsæls símtals þeirra fyrr í dag. Trump greindi frá fundinum í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social, þar sem hann sagði fundinn ætlaðan til að ræða möguleika á að binda enda á stríðið í Úkraínu.
Dagsetning fundarins hefur ekki verið ákveðin, en þetta verður í annað sinn sem leiðtogarnir hittast eftir að Trump tók við embætti forseta á nýjan leik. Trump upplýsti einnig að háttsettir embættismenn beggja ríkja, þar á meðal Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, muni funda í næstu viku.
Yfirvöld í Rússlandi hafa þegar hafist handa við að undirbúa fundinn. Samkvæmt Júri Ushakov, talsmanni rússneskra stjórnvalda, áttu Rússar frumkvæðið að símtalinu fyrr í dag. Á sama tíma er Volodímír Selenski, forseti Úkraínu, á leið til Bandaríkjanna á morgun til að ræða mögulega afhendingu bandarískra Tomahawk-flauga. Flaugarnar hafa drægni upp á allt að 1.600 kílómetra og gætu náð inn fyrir rússnesk landamæri.
Trump hefur áður varað við því að afhending þeirra gæti leitt til stigmögnunar átakanna, en sagði sig jafnframt íhuga að senda þær ef ekki næðist samkomulag um frið.