Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri vestfirska miðilsins Bæjarins besta og fyrrverandi þingmaður, lýsir eftirtekjum af fjölmiðlamálinu um eldislaxa í laxveiðiám sem rýra. Hann bendir á að RÚV og Sýn hafi farið hamförum í málinu, en þegi nú þunnu hljóðið þegar komi í ljós að aðeins 12 eldislaxar hafi fundist í ánum.
Í grein Kristins á miðli sínum birtir hann tölur frá Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnun, sem gerðar voru kunngerðar í gær. Þessar upplýsingar snúa að upprunagreiningu laxa sem veiddust í tíu laxveiðiám í sumar, þar á meðal í Haukadalsá, Hrútafjarðará, Miðfjarðará og Reykjadalsá í Borgarfirði.
„Um er að ræða afrakstur mikils átak í leit að eldislaxum í laxveiðiám landsins sem fór fram í sumar í kjölfar fullyrðinga fulltrúa Stangveiðifélags Reykjavíkur og annarra um mikið magn af eldislaxi sem væri á leið upp í ár landsins, einkum Haukadalsá í Dölum,“ segir Kristinn. „Haldið var fram að eldislaxinn hefði sloppið úr kvíum á Vestfjörðum og að fjöldinn skipti hundruðum í mjög mörgum ám landsins.“
Eins og margir muna, voru norskir kafarar fengnir hingað til lands til að veiða laxa.
„Niðurstaðan eftir margra mánaða eftirgrennslan þessara opinberu stofnana er þessi: 12 eldislaxar. Það er allt og sumt,“ segir Kristinn. Af 34 laxa sem sendir voru til rannsóknar, voru 22 villtir.
„Þetta er rýr eftirtekja af þessu stóra fjölmiðlamáli sumarsins þar sem bæði RUV og Sýnar miðlarnir fóru hamförum. Fréttaflutningurinn, sérstaklega á RUV, var þannig að engu var líkara en að gjörrvallir laxastofnar landsins væru við útrýmingardyr laxeldisins. Ef laxeldið yrði ekki bannað strax á morgun, væri allt tapað,“ lýsir Kristinn. „En þessir miðlar sögðu ekkert frá þessu í fréttum sínum í gær. Þeir þögðu þunnu hljóði. Enda hvernig eiga þeir að segja, sem var, að það fundust aðeins 12 eldislaxar án þess að tapa andlitinu yfir öllum hamfarafréttunum?“
Hann bendir á að 12 eldislaxar skipti engu máli fyrir villta laxastofna landsins. Samkvæmt Hafrón ganga 78 þúsund laxar að meðaltali upp í ár landsins á hverju ári. Ef hlutfall af eldislaxi er 4 prósent eða minna, hafi það engin áhrif til erfðablöndunar. Þetta jafngildir 3 þúsund laxa. Villtu stofnarnir standi sterkir þrátt fyrir þá innblöndun.
Kristinn nefnir einnig að árið þar á undan hafi aðeins fundist 30 eldislaxar. Frá árinu 2014 hafi aðeins tugir eldislaxa fundist ef frá er talið árið 2023 þegar um 400 eldislaxar veiddust eftir slysasleppingu í Patreksfirði.
„Þetta er staðan varðandi áhættuna af erfðablöndun. Hún er minni en engin, jafnvel að teknu tilliti til slysasleppningarinnar,“ segir Kristinn. „Um þetta þegja RUV og Sýnarmiðlarnir. Og um þetta þegja ríkisstofnanirnar sem sendu frá sér fréttatilkynninguna í gær.“
Hann bendir einnig á að í Noregi séu mörkin 10 prósent en ekki 4 prósent eins og hér. Miðað við það mætti fjöldinn í raun vera 300 sinnum meiri.
„Um þetta er þagað þunnu hljóði. Fjölmiðlar og ríkisstofnanir. Hvað á þetta að þýða af hálfu opinberra stofnana að segja ekki það sem rétt er heldur spila með hávaðaþungum sérhagsmunaaðilum sem eiga greiða leið inn í helstu fjölmiðla landsins og hafa það eina markmið að fá laxeldi bannað á Íslandi?“ spyr hann að lokum. „Það er ekkert í veginum fyrir því að stórauka laxeldið á Íslandi, villtum laxastofnum að skaðlausu, og auka þjóðartekjurnar um hundruð milljarða króna á ári og bæta lífskjör þjóðarinnar stórlega með því – annað en fáfræði og upplýsingaóreiða.“