Andri Úlfarsson hefur nýverið tekið við sem framkvæmdastjóri hönnunar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Júní. Hann hóf störf hjá Júní í byrjun árs 2024, fyrst sem ráðgjafi og síðar sem aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Í nýju hlutverki sínu mun Andri hafa yfirumsjón með daglegum rekstri, stefnu og áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins. Andri kom til Júní eftir að hafa starfað í sjö ár sem framkvæmdastjóri sölusviðs Toyota. Hann er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í fjármunum fyrirtækja og hefur yfir áratugar reynslu í fjármálakerfinu.
„Það eru spennandi tímar hjá okkur í Júní. Starfsemin hefur vaxið umtalsvert og við höfum tekið að okkur sífellt umfangsmeiri verkefni síðustu misserin. Tæknileg geta teymisins spannar breiðara svið en áður og þjónustusvið fyrirtækisins er alltaf að breikka í takt við það,“ sagði Andri í yfirlýsingu.
Arndís Thorarensen, einn af stofnendum Júní, hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hún mun nú taka að sér hlutverk stjórnarformanns samhliða því að vera stefnumótandi ráðgjafi fyrir viðskiptavini Júní. „Andri býr ekki aðeins yfir umfangsmikilli reynslu af því að starfa sem framkvæmdastjóri, heldur hefur hann frábæra sýn á framtíðina fyrir Júní og veit hvernig best er að framkvæma og innleiða þær breytingar sem við sjáum fyrir,“ bætti Arndís við.