Bakkavör hefur tekið stórt skref í átt að samruna við Greencore. Samkeppniseftirlit Bretlands hefur lokið fyrsta fasa rannsóknar á samrunanum, þar sem niðurstaðan er jákvæð. Nú er gert ráð fyrir að samruninn gangi í gegn á næstu mánuðum.
Í byrjun apríl samþykkti stjórn Bakkavarar Group yfirboð Greencore Group, sem nemur um 1,2 milljörðum punda, eða um 200 milljörðum króna. Tilboðið felur í sér að hluthafar Bakkavarar fá greitt í reiðufé og eignast samtals um 44% af heildarhlutafé sameinaðs félags.
Samkvæmt samrunanum var hver hlut í Bakkavör metinn á 200 pens, sem er 32,5% yfir dagslokagengi félagsins þann 13. mars sl. Hluthafar fá greitt út 85 pens á hlut og eignast 0,604 hluti í Greencore fyrir hvern hlut í Bakkavör.
Bræðurnir Ágúst og Lyður Guðmundsson eiga samanlagt 49,1% hlut í Bakkavör, en Sigurður Valtysson á 1,1% hlut. Þeir hafa því 50,2% eignarhlut í Bakkavör og eignast um 22% hlut í sameinuðu félagi. Virði eignarhluta þeirra fer því yfir 582 milljónir punda, eða um 100 milljarða króna.
Nú hefur Samkeppniseftirlit Bretlands (CMA) lokið fyrsta fasa í rannsókn sinni á samruna Greencore og Bakkavarar. Niðurstaðan sýnir að kaupin raski ekki samkeppni í starfsemi sem tekur til 99% af veltu sameinaðs félags. Eina undantekningin snertir framleiðslu á kældum sósum, sem markaðssettar eru undir vörumerkjum félaganna í Bretlandi.
CMA mun skoða þetta atriði nánar í öðrum fasa rannsóknarinnar, sem hefst nú. Fyrsti fasi rannsóknarinnar hófst 1. september og lauk 27. október. Niðurstaða annars fasa er væntanleg um eða eftir áramót. Þar sem niðurstaða fyrsta fasa var afgerandi, ef frá er talið sósumarkaðurinn, hefur Greencore tækifæri til að leggja fram úrræði til að mæta athugasemdum Samkeppniseftirlits Bretlands hvað þann markað varðar. Ef eftirlitið samþykkir úrræðið mun annar fasi rannsóknarinnar ekki verða jafn ítarlegur og ella.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.