Davíð Helgason, einn af stofnendum Unity Software, seldi um 0,3% hlut í fyrirtækinu á mánudaginn, sem nam tæplega 60 milljónum dala, eða um 7,3 milljörðum króna. Sala Davíðs kemur í kjölfar verulegrar hækkunar á hlutabréfaverði Unity, sem hefur hækkað um 75% á árinu.
Samkvæmt heimildum hefur Davíð minnkað hlut sinn í Unity með reglubundnum hætti undanfarin fjögur ár. Þessi sala er sú stærsta sem hann hefur framkvæmt í fyrirtækinu frá því að félagið fór á markað árið 2020. Davíð seldi alls 1,35 milljón hluta á meðalgengi 44,43 dala á hlut, samkvæmt tilkynningu til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC).
Þetta var þriðja sala Davíðs á hlutabréf í Unity á þessu ári, þar sem hann seldi hlutabréf fyrir 7,6 milljónir dala í febrúar og 6,8 milljónir dala í júní. Alls hefur hann selt 0,45% hlut í fyrirtækinu fyrir 74,3 milljónir dala, sem jafngildir um 9,1 milljarði króna, á árinu.
Eftir þessa sölu á Davíð 6,14 milljónir hluta, sem samsvarar um 1,45% eignarhlut í Unity, að verðmæti um 274 milljónir dala eða 33,5 milljarða króna. Hlutabréfaverð Unity stendur í 43,1 dollara á hlut þegar þessi frétt er skrifuð, og hefur hækkað um nærri 30% frá því í fyrra mánuði.
Markaðsvirði Unity nemur yfir 18 milljörðum dala. Fyrirtækið birti uppgjör fyrir fyrri árshelming þann 6. ágúst, þar sem tekjur þess námu 441 milljón dala á öðrum ársfjórðungi, sem er 2% samdráttur milli ára. Þrátt fyrir tap upp á 107 milljónir dala á fjórðungnum, sagði forstjóri félagsins að rekstrarniðurstaðan hefði verið talsvert yfir væntingum, bæði hvað varðar tekjur og rekstrarhagnað.
Að auki má nefna að markaðsvirði samkeppnisaðila Unity, AppLovin, hefur nærri sexfaldast á síðustu tólf mánuðum, og nemur yfir 190 milljörðum dala. AppLovin reyndi árið 2022 að sameinast Unity og lagði fram tilboð sem að hluthafar Unity hefðu eignast 55% af sameinuðu félagi. Stjórn Unity hafnaði tilboðinu og ákvað frekar að einbeita sér að kaupum á fyrirtækinu ironSource.
AppLovin hefur vaxið hratt á síðustu misserum og hagnaðist um 820 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi, sem er 164% aukning frá sama tímabili í fyrra. Tekjur AppLovin jukust um 77% milli ára. Í nýlegri umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að AppLovin hafi náð góðum árangri í að tengja auglýsendur við spilendur tölvuleikja á snjallsímum, þar sem yfir einn milljarður einstaklinga spilar tölvuleiki á símum sínum daglega.