Í dag fór fram fyrirtaka í máli Vélfags og Ivan Nicolai Kaufmann, eiganda félagsins, gegn ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, sagði að málin snúist um hvort rétt hafi verið staðið að þeim stjórnvaldsákvörðunum sem teknar voru gegn Kaufmann og Vélfagi.
Hann taldi að ekki hefðu verið færð fram nægileg rök fyrir ákvörðuninni og að hún stæðist því ekki lög. Sigurður benti á að fullnægjandi rannsókn hefði ekki farið fram og að stjórnvaldið hefði ekki gætt meðalhófs í málinu. „Eins og stjórnvaldum ber að gera. Stjórnvaldið á alltaf að gæta meðalhófs í öllum ákvörðunum sínum,“ sagði Sigurður.
Aðeins lögmenn voru viðstaddir fyrirtökuna í dag, en aðalmeðferð í báðum málum er fyrirhuguð að hefjast á fimmtudaginn. Vélfag er það eina íslenska fyrirtæki sem fellur undir viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússum. Félagið var áður í eigu rússneska útgerðarfélagsins Norebo, þar sem eigandinn, Vitaly Orlov, er meðal helstu útgerðarmanna Rússlands.
Forsvarsmenn Vélfags hafa ítrekað sagt að ekkert samband sé lengur við Norebo. Þeir kvarta til Eftirlitsstofnunar ESA. Stjórnendur Vélfags tilkynntu einnig í dag að fyrirtækið hefði ráðið Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, til að fara með kvörtun fyrirtækisins til Eftirlitsstofnunar ESA.