Lísbet Sigurðardóttir hefur verið ráðin lögfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands. Hún gekk til liðs við ráðið fyrr á þessu ári og hefur starfað sem lögfræðingur á málefnasviði. Í tilkynningu frá Viðskiptaráði kemur fram að Lísbet taki við stöðu lögfræðings af Maríu Guðjónsdóttur, sem starfaði í ráðinu frá árinu 2023.
Í tilkynningunni segir að Lísbet muni sinna lögfræðilegri ráðgjöf gagnvart framkvæmdastjóra og stjórn, annast umsagna- og skýrslugerð, auk þess að taka þátt í málefnastarfi ráðsins. Einnig mun hún halda utan um starfsemi Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands.
Lísbet lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2020 og BA prófi í lögfræði frá sama skóla árið 2018. Áður en hún kom til Viðskiptaráðs starfaði hún hjá Sjálfstæðisflokkinum frá árinu 2021. Þá hefur hún einnig starfað sem lögfræðingur hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, sem laganemi á lögfræðistofunni Jónatansson & Co. og sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu.